Í kringum Ísland með Fjólu flautu, kennslubók
3.890 kr
Á lager
Vörunúmer: IS-FJOLA
Í kringum Ísland með Fjólu Flautu er spennandi kennslubók í flautuleik fyrir byrjendur á öllum aldri. Að hefja nám á hljóðfæri er ekki ólíkt því að leggja af stað í ævintýraferð og með Fjólu Flautu verður þetta ævintýri sérlega töfrandi. Þessi kennslubók er ekki bara safn laga og æfinga, heldur sameinar hún með ævintýralegum hætti flautunám og ýmsa menningarlega þætti sem eru einstakir fyrir land okkar og þjóð. Söguhetja bókarinnar er flautukennarinn Fjóla Flauta sem ferðast um Ísland í fylgd tveggja nemenda sinna, Gumma og Diddu. Á viðburðaríku og töfrandi ferðalagi kynnast þau áhugaverðum stöðum og fólki sem þau læra margt nýtt af og nemendur taka sjálfir þátt í ferðalaginu í þessari fræðandi frásögn. Flest lög bókarinnar eru útsett fyrir tvo flautuleikara enda eru félagsskapur og samhljómur mikilvægir þættir í námi í hljóðfæraleik. Þetta gerir námið líka skemmtilegra og árangurinn batnar fyrir vikið. Tónlistin í bókinni er fjölbreytt og kemur víða að. Hér er meðal annars að finna kunnugleg klassísk stef, íslensk þjóðlög og dægurlög sem allir þekkja. Pamela, Guðrún og Martial, höfundar bókarinnar unnu saman í mörg ár við Tónlistarskóla Kópavogs og mótuðu þar mjög öfluga flautudeild. Öll þrjú hafa verið virkir þátttakendur í tónlistarlífinu á Íslandi sem og erlendis, bæði sem kennarar og einleikarar. Margþætt reynsla þeirra sem tónlistarkennarar reyndist ómetanleg þegar kom að ritun þessarar bókar, enda varð samstarfið afar frjótt og uppbyggilegt. Niðurstaðan er þessi bók sem getur hjálpað flautunemendum að fræðast og vaxa sem hljóðfæraleikarar í töfraheimi tónlistarinnar. Kennslubókin er ríkulega myndskreytt af Böðvari Leós og Heiðu Rafnsdóttur. Töfrahurð útgáfa gefur bókina út.